niðurgangur

fimmtudagur, mars 23, 2006

Starfsfriður á nefndarfundum

Samgöngunefnd hefur nú tekið til athugunar frumvarp þess efnis að aðgreina fjárlagaheimildir nefndarmanna samgönguráðuneytis frá störfum og útgjöldum ráðuneytanna sjálfra. Þetta kemur til með að hægja á nefndarsetu þingmanna en fulltrúar stjórnaraðstöðunnar telja tapaða vinnu á forstigum mála geti unnið upp formlega þingsetu á seinni stigum. Í fyrsta lagi getur nefndarmaður verið fylgjandi málinu en ekki fellt sig við einstakar útfærslur þess eða þá meðferð sem það hefur hlotið hjá nefndinni. Í öðru lagi ber að gefa þegar í stað út yfirlýsingu um að fallið verði frá, a.m.k. að sinni, skattalækkunaráformum ríkisstjórnarinnar. Þessi tvö atriði munu vega þungt í að rétta af efnahagslíf sveitafélaga sem aðild hafa að málinu í heild sinni.
Sjáum til.

miðvikudagur, mars 15, 2006

áttaviltur

Jæja, þá er maður loksins kominn á þráðlaust net-kaffi. Verst að það er ekki hægt að stinga Lappa í rafmagn því hér eru bara breskar instungur (gömul ensk nýlenda) og batteríið er fljótt að fara á þessu gamla skassi.
Komum hingað í fyrradag og eyddum öllum deginum í gær í rúminu. Fengum síðasta lausa herbergið á frábæru gistiheimilli í miðbænum. Ferðin hingað var erfið, sérstaklega ferjan, þar sem það var einstaklega vont í sjóinn. Kata ældi eins og múkki allan tímann og féll næstum því útbyrðis í tvígang. Ég reddaði mér með því að vera fullur og fann ekki fyrir neinu. Nema þynnku þegar við gengum frá borði.
Jói er með heimþrá en annars eru við hress. Slæmur kafli er liðin og framundan eru lönd sem líkjast æ meir vesturlöndum. Kannski maður splæsi í kókflösku á næstunni.

100% II

Mætti kl ellefu. Fór beint á gólfið. Tók Hummerinn með sám og resol. Bónaði Micruna og skuttlaði svo Boxernum frá Heklu og heim á stæði. Kallinn var náttúrulega ekki búin að átta sig á að ég væri á seinni vakt og fór eitthvað að röfla. Ég sagði honum bara það sem hann þurfti að heyra. Beggi er hress en Sverrir getur ekki hætt að væla, enda aumingi. Hann ætti að prófa að skella búðing af resol á toppinn og halda svo kjafti.

mánudagur, mars 13, 2006

Blogg?

Fyrst ég hef tekið þá ákvörðun að opinbera raus mitt þá má ég til með að skilgreina það frekar.Hvort á ég að vera með:
Vinnublogg:
.. og kallinn sagði mér að ég ætti að skafa rennuna áður en ég fræsti. Það er náttúrulega rugl og getur rústað öllu kerfinu. Rennan getur ekki tekið við fullri fræsingu eftir sköfun nema efnið sé blautt...
eða
Reisublogg:
..þá kom betlari, en það er náttúrulega best að láta sem maður sjái þá ekki, það er ekki hægt að gefa öllum og sumir eru bara að þykjast...
eða
Pólitík-blogg:
..Össur mælir gegn þessum breytingum en það er á röngum forsendum því við höfum aldrei sagt okkur frá sambandinu og ráðuneytið getur bakfært allar færslur í skýrslugerðum til og með ágúst 2002. Þegar það er skoðað frá..
eða
Venjulegtblogg:
..en ég er í fríi á morgun og þá verður sko sofið út...
eða
Idolblogg:
...ekki Bubba að þakka. Bjarni er bara svo mikið fífl og ég vona að hann detti út næst. Hann var samt flottur í hippa þemanu. Sigrún sagði mér samt....
eða
Djammblogg:..algjör dúlla. Refurinn kom svo feitur á hleranum og keyrði allt í botn. Ekki séns að...
eða
Bílablogg:..haha. Impresan hjá Pétri er allavega klár, svona næstum því:). Felgurnar koma í næstu viku en þangað til þarf hann að nota Löduna...
eða
Skákblogg:
...f2. Þá hefði þetta verið unnin skák. F2xDf4 hefði haldið pressunni lengur en Hannes hafði þá aðeins einn valkost og....
eða
Ljóðablogg:
...sumrinu. Döggin sló mig með léttum banahöggum: Hvað er sólin?Hvað er sólin? Spyr hún. Maðurinn gengur til sonarins....
eða
Biggablogg:
...fíflinu á Omega. Hvernig er hægt að bera virðingu fyrir skoðunum annarra þegar skoðanir annarra eru fokking bull? Gunnar Þorst.....
eða
Ruglblogg:...sé og hvurtur. Suggu buggu. Ná lælæ.AAAAAHE.!!!!!
?


Nenni ekki meir, allavega eitt af þessum. Áskil mér rétt til að skálda aðstæður, persónur og allt annað.

mánudagur, mars 06, 2006

100%

Ég-Hvað er ég að vinna marga tíma á mánuði?
Hann-210 tímar eða 100 prósent vinna
Ég-Ha?

föstudagur, mars 03, 2006

Draumur er úti

Ég fékk vinnu. Ekki skil ég afhverju það ætti að óska mér til hamingju. Nú er ég ekkert spes. Bara gaur sem vinnur á bílaleigu akureyris.
Ekki gaur sem skúrar fyrir hádegi og bjargar heiminum eftir það.